Í dag 10. mars er handhöfum grásleppuleyfa heimilt að leggja net sín víðast hvar um landið. Ekki er þó líklegt að margir hafi farið af stað til að leggja þar sem veðurlag er ekki hagstætt til sjóferða.
Starfsfólk BioPol hefur, líkt og grásleppusjómenn;að undanförnu verið að undirbúa sig fyrir komandi grásleppuvertíð. Í ár er áætlað að framkvæma umfangsmiklar lengdarmælingar á hrognkelsum ásamt því að merkja um 2.000 fiska. Lögð verður áhersla á að framkvæma merkingar sem mest í lok vertíðar til þess að auka líkur á endurheimtum á milli ára.
Á undanförnum þremur árum hafa verið merkt rúmlega 7.500 hrognkelsi í einstaklega góðu samstarfi við grásleppsjómenn vítt og breytt um landið. Endurheimtur hafa verið nokkuð góðar innan vertíða en frekar fáar á milli ára.
Nú verðum við bara að vona að vorið fari að birtast í veðurkortunum, þrátt fyrir að talað sé um að öskudagur eigi sér 18 bræður.